Bragðgóðar bananamúffur

Hver kannast ekki við að eiga brúna banana sem enginn vill borða? Um leið og þeir verða freknóttir þá eru þeir ákjósanlegir í bakstur og þessir með brúna hýðinu eru langbestir. Trúið mér. Eitt af því sem ég kenni mínum nemendum er að forðast matarsóun og krakkar í 6. og 7. bekk í heimilisfræði í Flataskóla baka bananamúffur sem þeir eru hrifnir af og biðja um uppskriftina.

Þessa dagana stöndum við spúsi í framkvæmdum á heimilinu, erum að innrétta, mála, gera og græja eitt hverbergi. Það er ekki mikið gagn í mér í svoleiðis verkum en ég get bakað og eldað og þannig hjálpað mínum besta að vera saddur og sæll og fullur af orku. Þessi verkefni eru ekki beinlínis það skemmtilegasta sem þessi elska hendir sér í þannig það er til þess vinnandi að hafa hann góðan, er það ekki?

Í morgunn blöstu við mér nokkrir bananar í skál, ekki mjög spennandi útlits en meira en tilbúnir til að verða að gómsætum múffum. Ég settist niður með símann og ætlaði að finna mér nýja uppskrift til að prófa þegar facebook fékk nánast hugskeyti frá mér (óhuggulegt en satt) og á síðunni blasti við spennandi uppskrift að þessum dásamlegu kökum. Hún kemur frá Önnu Olson, sem lærður bakari og hefur verið með þætti á food network. Anna býr í Kanada og á mann sem er af íslenskum ættum. Alveg þess virði að kynna sér uppskriftirnar hennar.

Ég breytti smá, minnkaði aðeins sykurmagnið sem er vel hægt þegar bakað er með ávöxtum. Setti súkkulaði og pecanhnetur vegna þess að ég átti þessi hráefni í skápnum.

Innihald:

2 vel þroskaðir bananar

1/2 bolli mjúkt smjör

1/2 bolli púðursykur

2 stór egg

1 teskeið vanilludropar

2 bollar hveiti

1 1/2 teskeið lyftiduft

1/2 teskeið matarsóti

1/4 tsk salt

1 teskeið kanilduft

1/2 bolli súrmjólk eða venjuleg mjólk (belju eða plöntu)

1/2 bolli saxaðar pecanhnetur

1 bolli súkkulaðibitar (ykkar uppáhalds eða það sem er til)

Aðferð:

Stillið ofninn á blástur og 175 gráður

Setja 12 múffuform í ofnskúffu eða þar til gert múffuform (mæli með því að nota svoleiðis)

Setja banana í hrærivélaskál og merja þá

Bæta við smjöri, púðursykri, eggjum og vanilludropum

Setja þurrefni og kanil í skál, saxa súkkulaði og hnetur og setja til hliðar

Hafa mjólkina tilbúna

Blanda þurrefnum og mjólk saman við blönduna til skiptis

Hræra saman og bæta súkkulaði og hnetum í blönduna

Hella deiginu í formin (ég nota ísskeið með sleppibúnaði, þá er jafnt í öllum formunum)

Baka í 20 – 25 mínútur (fer svolítið eftir ofnum)

Bakið og njótið