Hvað er betra á köldum vetrardegi en góð eplakaka? Ég skellti í eina slíka í gær og læt fylgja með einfalda grunnuppskrift, það má breyta henni og bæta að vild allt eftir því hvað ykkur finnst gott og hvað til er í skápunum. Rifinn börkur og safi af sítrónu gefa gott og ferskt bragð, svo eru trönuber og brytjuð epli alltaf góð saman. Þá er lag af deiginu sett í formið, þunnt skornir eplabitar og þurrkuð berin og svo afgangur af deiginu yfir og eplasneiðar ofan á.
Að þessu sinni blandaði ég saman og smurði eplin með hlynsírópi og Pumkin spice, sem er kryddblanda frá Kryddhúsinu. Setti svo pecanhnetur yfir kökuna þegar fimm mínútur voru eftir af bökunartímanum. Ekki gott að setja þær of snemma þar sem þær brenna auðveldlega. Eplin verða svolítið dökk vegna þess að kryddbandan inniheldur kanil, engifer, múskat og negul.
Hér kemur uppskriftin:
Hráefni:
200 gr smjör við stofuhita
200 gr sykur
2 egg við stofuhita
1 teskeið vanilludropar
200 gr hveiti
2 tsk lyftiduft
1,5 dl mjólk
1 – 2 epli
3 matskeiðar hlynsíróp
1 teskeið Pumkin spice (eða kanilduft)
50 gr pecanhnetur
Aðferð:
Stillið ofninn á 175 gráður C og blástur
Hrærið saman smjör og sykur
Bætið eggjum í, einu í einu og hrærið saman
Bætið í vanilludropum, mjólk og þurrefnum og hrærið vel
Smyrjið form með smjöri, ég notaði smelluform sem er 22 cm í þvermál
Hellið deiginu í formið
Kjarnhreinsið eplin, skerið í þunnar sneiðar og raðið fallega ofan á deigið
Hrærið saman síróp og krydd og penslið eplin
Bakið í 35 mínútur og bætið þá hnetunum ofan á og bakið áfram í 5 mínútur eða þar til kakan er bökuð
Kælið í 30 mínútur í forminu og setjið á fallegan kökudisk
Best volg með þeyttum rjóma eða góðum vanilluís
Njótið og hafið það huggulegt!
