Nýtt matarblogg

Mig hefur lengi langað til að skrifa um matargerð. Á tímabili fannst mér að það væri að bera í bakkafullan lækinn að bæta enn einu matarblogginu við það sem fyrir er en vegna þess að góð kona sagði eitt sinn við mig að maður ætti að ganga í takt við sjálfan sig þá sló ég til og byrjaði að búa til þessa síðu. Hér verður fjallað um huggulegan heimilismat af ýmsu tagi, líkt og hefðbundinn íslenskan og nokkuð öruggt að það verða einhverjir réttir frá Ameríku, Kanada, Frakkalandi og Ítalíu. Það verða ofnréttir, grillmatur, pottréttir, kökur, brauð, smáréttir, heimagert pasta og allt annað sem mér dettur í hug að búa til og fólkinu mínu þykir gott að borða.

Ég á nokkra uppáhalds matarsnillinga sem eru jafnframt mínar helstu fyrirmyndir í eldhúsinu. Það eru Julía Child, Ina Garten (Barefoot Contessa), Nigella, Rick Stein og nú nýlega bætti ég leikaranum og mataráhugamanninum Stanley Tucci í hópinn. Þau hafa öll verið mér innblástur og ég hika ekki við að breyta og bæta þeirra rétti ef ég er ekki alveg sátt sem er bara mín leið til að skapa eittthvað nýtt. Ég mun alltaf vísa í uppskriftir ef þær koma frá öðrum.

Markmiðið er að skapa eitthvað gott til að borða og njóta því lífið er of stutt fyrir vondan mat.