Enskar skonsur

Enskar skonsur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég er búin að prófa nokkrar uppskriftir. Þetta er þægilegur og fljótlegur bakstur og auðvelt að undirbúa með fyrirvara til dæmis að kvöldi og hafa tilbúið deig að morgni. Þá fara þurrefnin og smjörið í skálina og látið bíða undir loki og klárað og bakað daginn eftir.

Góð vinkona bauð mér í kaffi í gær. Hún er nýflutt í nýja íbúð og það hafði staðið lengi til að ég kæmi til hennar. Ekki það, við stöllur þurfum ekkert sérstakt tilefni til að hittast, stundum er fyrirvarinn stuttur og alltaf gaman hjá okkur. Ég bauðst til að koma með eitthvað nýbakað og stakk uppá enskum skonsum sem hún þáði. Við lögðum svo báðar til álegg rjómaost, sultu, smurost og fleira og drukkum gott kaffi með. Dásamleg samverustund og íbúðin notaleg og útsýnið einstakt.

Grunnurinn var þessi uppskrift frá Nönnu Rögnvaldar https://nannarognvaldar.com/2015/01/10/skonsulongun en ég freistaðist til að breyta aðeins. Setti eina teskeið af kanil og 50 gr af söxuðum valhnetum í deigið, sem kom mjög vel út. Það er hægt að leika sér með þetta og setja til dæmis þurrkuð trönuber, rúsínur, appelsínubörk og margt fleira. Bara það sem hendi er næst og okkur langar í.

Innihald fyrir 12-14 skonsur:

400 gr hveiti

1 matskeið lyftiduft

1/2 teskeið salt

75 gr sykur

125 gr mjúkt smjör

100 ml hrein jógúrt (má líka nota ab mjólk)

þrjú egg (tvö í deigið, eitt til að pensla með)

1 tsk kanil

50 gr valhnetur

Aðferð:

Hita ofn í 200 gráður og blástur, athugið það getur verið misjafnt eftir ofnum, hjá mér passaði þessi hiti.

Ég vigtaði hveitið og sykurinn í skál, bætti í lyftidufti, salti, hnetur og kanil.

Setti smjörið með og muldi það saman við með fingrunum.

Hrærði saman eggin og jógúrtið í skál og blandaði saman við þurrefnin með sleif, athugið að það getur þurft að hafa jógúrt við hendina ef deigið er of þurrt eða hveiti ef það er of blautt. Hér þarf að þreifa sig áfram.

Þegar deigið var orðið samfellt hvoldi ég því á bökunarpappír, notaði kökukefli til að fletja það út í ca 2 cm þykka köku og skar út með glasbrún (7 cm í þvermál) og setti skonsurnar á aðra örk af bökunarpappír á plötu.

Þeytti eitt egg og penslaði skonsurnar og setti í ofninn.

Bakaði ofarlega í ofninum í 14 mínútur og ilmurinn var dásamlegur.

Lét kólna á grind og tók svo með með mér í boxi.